Lækkum fasteignagjöld tafarlaust

Reykvísk fyrirtæki, stór og smá, flykkjast nú unnvörpum með starfsemi sína til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er tvíþætt: Háir fasteignaskattar og skortur á húsnæði. Síðarnefnda vandamálið stafar af mestu af lóðaskorti sem lengi hefur verið rætt og ritað um. Hætt er við því að nokkurn tíma muni taka að vinda ofan af þeim uppsafnaða vanda ef ekki er brugðist fljótt við.

Há skattheimta á atvinnuhúsnæði er hins vegar vandamál sem hægt er að leysa með einu pennastriki á skömmum tíma.

Skattheimta á atvinnuhúsnæði hefur aukist hratt í Reykjavík á undanförnum árum. Á árabilinu 2013 til 2018 hækkaði fasteignamat í Reykjavík um tæplega 50%. Á árinu 2018 breytti Þjóðskrá aðferðafræði sinni við vinnslu fasteignamats sem olli því að fasteignir voru metnar nær markaðsvirði. Matsbreytingin orsakaði tæplega 13% hækkun fasteignamats á einu bretti. Allir vita svo hvernig fasteignamarkaðurinn hefur þróast á allra síðustu árum.

Ætla má að innheimt fasteignagjöld Reykjavíkurborgar á árinu 2021 muni höggva nærri 21 milljarði króna. Sé litið til ársreiknings Reykjavíkur frá árinu 2013 má sjá að innheimt fasteignagjöld munu þá hafa aukist um tæp 54% að raunvirði í valdatíð núverandi meirihluta.

Hér er ekki um neitt annað að ræða en hreina skattahækkun.

Umræðan um hærri skattbyrði á atvinnuhúsnæði fór aldrei fram. Engin ákvörðun var tekin um þessa tilteknu skattahækkun. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hins vegar vanrækt að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda til samræmis við hækkandi fasteignamat.

Önnur sveitarfélög hafa ekki látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær, Reykjanesbær og Vestmannaeyjabær hafa öll lækkað álagningarprósentu fyrir yfirstandandi ár til samræmis við hækkandi fasteignamat og eru öll með lægri álagningarprósentu en höfuðborgin.

Reykjavík lækkaði álagningarprósentu atvinnuhúsnæðis lítillega úr hinu 1,65% lögbundna hámarki í 1,6% fyrir ríflega ári síðan. En betur má ef duga skal.

Rétt væri að stefna að því í fyrsta kastið að lækka álagningarprósentuna niður í 1,2 til 1,3% til að byrja svo Reykjavík bjóði upp á samkeppnishæfasta rekstrarumhverfið á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir eru jafnan hærra metnar í Reykjavík en annars staðar og því er eðlilegt að álagningarprósenta fasteignagjalda sé lægri þar en annars staðar.

Til frambúðar ætti svo að gæta að því að álagning fasteignagjalda haldist stöðug að raunvirði, atvinnulífi Reykjavíkur til framdráttar.

Greinin birtist fyrst á Vísi 9.mars.

Leave a Reply

Your email address will not be published.