Skafið innan úr Orkuveitunni

Uppgjör Orkuveitu Reykjavíkur (OR) fyrir síðasta rekstrarár er það besta frá upphafi með tilliti til rekstrarhagnaðar. Álverð er helsta skýringin á góðum hagnaði fyrirtækisins. Álmarkaðir voru þegar farnir að hjarna við á fyrri hluta árs 2021 í kjölfar verðhruns í heimsfaraldri. Á síðari hluta árs náði álverð svo methæðum. Það met hefur raunar síðan þá verið slegið aftur vegna ófriðar í austurhluta Evrópu.

Líklegt má telja að stærsta arðgreiðslan í sögu OR verði tilkynnt í kjölfar afkomutilkynningarinnar. Raunar hangir fjármálaáætlun Reykjavíkurborgar á því að tugir milljarða renni út úr fyrirtækinu til eigenda í gegnum arðgreiðslur á næstu fimm árum. Staðan í dag er þessi: Ef OR reiðir ekki fram fimm milljarða á ári í arðgreiðslu til Reykjavíkur verður borgarsjóður Reykvíkinga líkast til rekinn með halla. Það liggur í augum uppi að fyrirhugaðar arðgreiðslur verða hins vegar alltaf á kostnað einhvers annars í rekstri OR. Það er fjárfestinga, viðhalds og vaxtar. Stjórn OR samþykkti í september síðastliðnum fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 og fimm ára fjárhagsspá OR fyrir árin 2023-2027. Tekjur OR eiga að aukast um tæp 20% á árabilinu 2023 til 2027 og er spáð í tæpum 68 milljörðum á árinu 2027. Á sama tímabili eiga fjárfestingar fyrirtækisins hins vegar að dragast saman um svipaða prósentutölu og eiga að vera um 17 milljarðar á árinu 2027.

Fjárfestingar sem hlutfall af veltu eru áætlaðar um 38% á árinu 2022. Sama hlutfall á að lækka í 25% á árinu 2027. Öllum er ljóst að raforkunotkun mun aukast mikið á allra næstu árum og því sætir furðu að fjárfestingar næststærsta raforkuframleiðanda landsins eigi að dragast saman á tímabilinu. Ætlar OR að skila auðu í orkuskiptunum?

Því hefur verið haldið fram að ekki þurfa að virkja meira til að orkuskipti geti átt sér stað á Íslandi. Sú umræða á varla rétt á sér því augljóst er að fullyrðingin stenst ekki. Landsvirkjun metur það sem svo að raforkuframleiðsla þurfi að aukast um að minnsta 50% til að standa undir orkuskiptum. Grænbók umhverfis- og orkumálaráðherra hefur líka litið dagsins ljós, en þar var lagt mat á hversu mikið meiri raforku þarf að framleiða hér á landi til að Ísland geti uppfyllt skuldbindingar sínar í loftslagsmálum. Þar var bætt töluvert í og reiknað með því að raforkuvinnsla þyrfti að meira en tvöfaldast á næstu árum. Það er því verk að vinna.

Pólitísk stjórn

Ekki er hægt að fullyrða að fjárhagsspá OR sé að einhverju leyti undir pólitískum áhrifum og miði öðrum þræði að því að skila sem mestum arðgreiðslum til eigenda á kostnað fjárfestinga í dreifikerfi og orkuvinnslu. Stjórn fyrirtækisins er hins vegar pólitískt skipuð og því er alls ekki hægt að útiloka það heldur.

Ekki þarf að líta lengra aftur en til útmánaða 2017 þegar 750 milljóna króna arðgreiðsla var samþykkt án þess að öll arðgreiðsluskilyrði væru uppfyllt. Veltufjárhlutfall fyrirtækisins var um 20% lægra en áðurnefnd skilyrði kváðu á um. Arðgreiðslan var engu að síður keyrð í gegn. Sporin hræða því í þessum efnum. Svo virðist sem arðgreiðslur í borgarsjóð Reykjavíkur og annarra eigenda fyrirtækisins séu forgangsmál umfram annað þegar fjármagni sem myndast við rekstur OR er ráðstafað.

 Það mætti velta því upp hvort eðlilegt sé að rekstur stærsta sveitarfélags á Íslandi sé háður því að álverð í London sé nægilega hátt, en það er efni í aðra umræðu. Hinn raunverulegi arður af rekstri OR sem heimili og fyrirtæki á suðvesturhorninu njóta á degi hverjum er eitt lægsta verð á raforku og húshitun sem fyrirfinnst á byggðu bóli.

Til að tryggja að svo verði áfram þarf að stöðva afskipti kjörinna fulltrúa af stjórnun fyrirtækisins og fela óháðri tilnefningarnefnd skipan stjórnarinnar. Aðeins þannig verða hagsmunir fyrirtækisins og Reykvíkinga allra tryggðir til lengri tíma.

Höfundur er hagfræðingur og óskar eftir stuðningi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 10.mars

Leave a Reply

Your email address will not be published.