Verðlaus rekstur Höfða

Framtíð Malbikunarstöðvarinnar Höfða er í lausu lofti og óljóst hver vilji meirihluta borgarstjórnar er í þeim efnum. Fyrir liggur að 20 þúsund manna íbúðabyggð er fyrirhuguð á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog og því þarf starfsemi malbikunarstöðvarinnar að víkja. 

Höfði hefur þegar keypt lóð í Hafnarfirði undir starfsemina. Nýjustu fréttir af málinu úr ráðhúsi Reykjavíkur eru síðan þær að fjármálasviði borgarinnar hafi verið falið að kanna sölu á rekstri Höfða.

Fyrir liggur að Reykjavík mun nú leysa til sín lóðina sem hefur verið nýtt undir starfsemi fyrirtækisins. Að sama skapi hefur komið fram að kostnaður við flutningana verði um 1,7 milljarðar króna – sá kostnaður verður fjármagnaður með lántöku. 

Í síðasta aðgengilega uppgjöri Höfða frá árinu 2020 var rekstrarafkoma Höfða neikvæð, sem er skiljanlegt í ljósi þess að þá hafði heimsfaraldurinn læst klóm sínum í stóran hluta atvinnulífsins. Sé hins vegar litið til áranna 2018-2019 var rekstrarhagnaður Höfða (EBITDA) 145 milljónir og 103 milljónir króna, eða um 125 milljónir króna að meðaltali. Fljótleg leið til að meta rekstrarvirði fyrirtækja er að líta til ákveðins margfeldis rekstrarhagnaðar. Af miklu örlæti mætti meta rekstrarvirði Höfða sem tífaldan rekstrarhagnað, eða sem samsvarar um 1,25 milljarði króna. Að sjá fyrir sér slíkan verðmiða á rekstri Höfða er þó ansi mikil bjartsýni. 

Í ljósi þess að Höfði hefur ekki lengur gjaldfrjáls afnot af núverandi lóð við Sævarhöfða er ljóst að rekstrarvirði fyrirtækisins er í besta falli núll. Verðmæti rekstrarins er hundruðum milljóna lægri en kostnaðurinn við flutningana í Hafnarfjörð og því nánast útilokað að kaupandi finnist að rekstrinum miðað við nýjar forsendur um staðsetningu í Hafnarfirði.

Efnahagsreikningur Höfða er þó þrátt fyrir allt í góðu ástandi og lítt skuldugur enn sem komið er. Því væri réttast að einfaldlega leggja niður rekstur Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Reykjavíkurborg gæti þannig leyst til sín allt að því einn milljarð króna með sölu á tækjum, tólum, birgðum, innheimtu útistandandi viðskiptakrafna og svo framvegis.

Lengi hefur verið bent á að þátttaka Reykjavíkurborgar á malbikunar- og grjótnámsmarkaði sé einfaldlega tímaskekkja, enda ríkir virk samkeppni á þeim markaði. Höfði hefur verið í eigu Reykjavíkurborgar frá því á fyrri hluta síðustu aldar og vel kann að vera að á þeim tíma hafi einkaframtakið ekki haft burði til að sinna grjótnámi og malbikun á höfuðborgarsvæðinu. Staðan er sannarlega önnur í dag og undirritaður er ekki sá fyrsti til að benda á þá staðreynd.

Nú hafa fjárhagslegar forsendur Höfða breyst með þeim hætti að borgarsjóður þarf mögulega að greiða með rekstrinum. Hið eina rétta í stöðunni fyrir borgarsjóð, eiganda Höfða, er að loka fyrirtækinu, selja eignir og leysa til sín það fé sem þar losnar og ráðstafa því fjármagni til lögbundinna verkefna sveitarfélagsins.

Greinin birtist fyrst á Innherja á Vísi 3.febrúar 2022.

Leave a Reply

Your email address will not be published.